Katrín Júlíusdóttir hefur þrætt langan og strembinn veg frá því að hún tók átján ára gömul þátt í að endurvekja ungliðahreyfingu Alþýðubandalagsins í Kópavogi. Hún varð síðan virk í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands, var ráðin framkvæmdastjóri Stúdentaráðs 24 ára gömul og framkvæmdastjóri fjölskyldufyrirtækisins G. Einarsson & co ári síðar, en það fyrirtæki rak þegar mest var fimm barnafataverslanir undir nafninu Lipurtá.

“Ég er kapítalisti á daginn en kommúnisti á kvöldin,“ voru hressileg ummæli höfð eftir Katrínu í viðtali á háskólaárunum þar sem hún sinnti innkaupum fyrir verslanirnar samhliða námi í MK frá 17 ára aldri og mannfræðinámi í HÍ. Við tók átakamikill stjórnmálaferill í forystusveit Samfylkingarinnar, fyrst sem þingmaður flokksins og síðan iðnaðarráðherra í Jóhönnustjórninni svokölluðu sem tók við stjórnartaumunum árið 2009 og þar á eftir fjármála- og efnahagsráðherra til ársins 2013.

Hún ákvað að sækjast ekki eftir endurkjöri fyrir kosningarnar vorið 2016 og var síðan ráðin framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) fyrir rúmu ári.

Mjög skrautlegur ferill að baki

Ég spyr hana hvort hún hafi breyst mikið frá því að hún var á kafi í ungliðastarfinu á seinasta áratug liðinnar aldar.

„Ég á mjög skrautlegan feril að baki í námi og starfi en finnst þó að ég sé alltaf eins,“ segir Katrín og hlær. „Ég hef ævinlega lagt mikið upp úr því að vera alltaf bara ég sjálf og gera það sem ég vil, hlusta á hjartað og gott fólk í kringum mig. Ég hef ekkert farið mjög hefðbundnar leiðir í gegnum tíðina, þetta er ekki mjög línulegt þegar að er gáð, en þannig er ég einfaldlega gerð og hef lært eitthvað nýtt á hverjum stað. Þegar ég hætti síðan í pólitíkinni í fyrra var ég tilbúin að takast á við hvað sem er. Og ég held raunar að hafi manneskja til að bera ákveðna eiginleika getur hún starfað nánast hvar sem er óháð geira.“

Þegar þú söðlaðir um eftir langan stjórnmálaferil og varst nokkru síðar ráðin til SFF mátti víða heyra gagnrýni frá fólki sem taldi óviðeigandi að manneskja með bakgrunn úr jafnaðarmannaflokki gerðist málsvari fjármálafyrirtækja. Hvað finnst þér um þessa gagnrýni í dag?

„Engin gagnrýni er ósanngjörn að öllu leyti. Ég tók þessa gagnrýni ekki inn á mig en spurði hins vegar nokkra sem viðruðu þessi sjónarmið hvort ég væri að riðla heimsmynd þeirra?“ Hún brosir við þessa upprifjun. „Það á engin ein stjórnmálaskoðun eða fulltrúar einnar stjórnmálaskoðunar að sjá um störf fyrir ákveðna geira í samfélaginu, þar með talið fjármálageirann. Það má ekki gleyma því að hann er lykilþáttur í samfélaginu og snertir tilveru allra með einhverjum hætti.

Af hverju ætti þá manneskja með sósíaldemókratískan bakgrunn ekki að starfa þar innanborðs, reyna mögulega að hafa einhver áhrif þar, setja fram sýn og skapa umræðu, og af hverju ætti fjármálageirinn ekki að vilja að fá fjölbreyttara og breiðara litróf fólks til starfa? Eigum við bara að láta eina stjórnmálaskoðun vera við lýði í þessum stóra og mikilvæga geira? Ég held að það væri honum ekki til framdráttar, þvert á móti. Enda starfa þúsundir einstaklinga í fjármálafyrirtækjum og þau eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Allt kemur fólki við, óháð bakgrunni eða stjórnmálaskoðunum.

Kannski finnst mörgum auðveldara að standa handan við girðinguna og öskra yfir hana, en ég er ein af þeim sem vilja fara inn fyrir girðinguna. Ég þrífst á áskorunum. Umhverfi fjármálafyrirtækja hefur tekið miklum breytingum sem enn sér ekki fyrir endann á og mig langaði til að taka þátt í þeim og því samtali sem um þær verða, og hvet sem flesta til að gera slíkt hið sama. Fara á bólakaf í málin og skoða þau, hafa á þeim skoðun og vera þátttakendur í umræðunni um leiðir og markmið.“

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .