Nýtt frumvarp sem lagt verður fyrir Alþingi á morgun, mun auka frelsi einstaklinga og fyrirtækja til fjármagnshreyfinga til muna verði það samþykkt. Frumvarpið er liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var í byrjun júní 2015.

Með frumvarpinu eru stigin veigamikil skref í átt að fullri losun fjármagnshafta. Frumvarpið er unnið í samræmi við ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og á að tryggja efnahagslegan stöðugleika og almannahag.

Við gildistöku frumvarpsins er lagt til að bein erlend fjárfesting innlendra aðila verði ótakmörkuð, en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands. Einnig á að heimila fjárfestingu í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri að uppfylltum skilyrðum. Fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána verður einnig gefin frjáls.

Ein erlend fasteign á mann

Einstaklingum verður veitt heimild til að kaupa eina fasteign erlendis á almanaksárið, óháð tilefni og kaupverði. Draga á úr skilaskyldu innlendra aðila á erlendum gjaldeyri og verður skilaskyldan afnumin vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum til kaupa á fasteign eða til fjárfestinga erlendis, nái frumvarpið að fara í gegn.

Ýmsar sértækar takmarkanir verða afnumdar eða rýmkaðar og þar með teljast heimildir einstaklinga til kaupa á ferðagjaldeyri. Heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar verða samkvæmt frumvarpinu einnig auknar, svo að bankinn geti reynt að stuðla að verðlags- og fjármálastöðuleika.

Beiðnum um undanþágur mun fækka

Með þeim ráðstöfunum sem settar eru fram í frumvarpinu ættu fjármagnshöftin ekki að setja þorra einstaklinga verulegar skorður og mjög fáum eftir næstu áramót. Í fréttatilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér muni leiða til þess að beiðnum um undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál fækki um 50–65% og að afgreiðslutími undanþágubeiðna styttist til muna.

Frumvarpið hefur ekki áhrif á heimildir aflandskrónueigna. Már seðlabankastjóri segir þetta frumvarp mikilvægan hlekk í fullu afnámi hafta. Hann telur að fullt afnám hafta verði metið á næsta ári og vonar að höftin verði þá losuð að fullu. Mikilvægt er þó að taka eitt skref í einu og að nálgast málin af mikilli varfærni.