„Við vonumst til að þetta verði afgreitt fyrir vorið og að rannsóknin geti farið sem fyrst af stað eins og margoft hefur verið kallað eftir,“ segir Álfheiður Ingadóttir, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Nefndin afgreiddi í gær tillögu til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (FBA), gamla Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Nefndin á að skila skýrslu um málið á Nýársdag á næsta ári.

Meirihluti nefndarinnar studdi tillöguna. Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal gerðu það ekki. Vigdís Hauksdóttir skilaði séráliti en hún vill að það sem hún kallar síðari einkavæðingu bankanna, þ,e, uppgjör þrotabúa gömlu bankanna eftir hrun, verði sömuleiðis undir smásjá rannsóknarnefndarinnar. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis féllst ekki á það.

„Það er allt annað mál og við föllumst ekki á það,“ segir Álfheiður.

Með víðtækar heimildir

Heimildir rannsóknarnefndarinnar eru jafn víðtækar og þær sem Rannsóknarnefnd Alþingis hafði sem skilaði skýrslum um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna og tengda atburði árið 2010. Hún getur m.a. kallað menn til skýrslutöku vegna málsins. Eini munurinn er hins vegar sá nú að viðurlögum er ekki beitt neiti menn að gefa skýrslu við rannsóknina.

Nefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis .