Við opnun markaða á mánudag færðist íslenski hlutabréfamarkaðurinn upp um gæðaflokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell í flokk nýmarkaðsríkja (e. secondary emerging markets) en áður var markaðurinn í flokki vaxtarmarkaða (e. frontier market) frá því í september árið 2019. Íslensk félög verða tekin inn í vísitölu FTSE fyrir nýmarkaði í þremur skrefum. Það fyrsta var tekið á mánudag, þriðjungur af væginu verður svo tekið inn í desember og lokaþriðjungurinn í mars á næsta ári.

Magnús Harðarson, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, segir helsta markmið Kauphallarinnar nú sé að stuðla að því að íslenski hlutabréfamarkaðurinn færist upp í næsta gæðaflokk hjá vísitölufyrirtækinu MSCI.

„MSCI tók íslenska markaðinn inn í hóp vaxtarmarkaða í fyrra og það yrði mjög stórt að komast inn í nýmarkaðsflokkunina hjá þeim. Til að íslenski markaðurinn komist þar inn þarf tvennt að gerast. Í fyrsta lagi þurfa stærstu félögin á markaði að verða aðeins stærri. MSCI miðar meðal annars við hversu mörg stór fyrirtæki eru á markaðnum. Marel kemst yfir þann þröskuld og Arion banki og Íslandsbanki eru mjög nálægt því. Auk þess þurfum við að sannfæra MSCI um að gjaldeyrismarkaðurinn geti höndlað innflæðið sem færsla upp um gæðaflokk hefði í för með sér.“

Það að fara upp um gæðaflokk hjá MSCI hefði að sögn forstjóra Kauphallarinnar enn meiri jákvæð áhrif fyrir íslenska hlutabréfamarkaðinn en þegar hann færðist upp um flokk hjá FTSE Russell. „Það eru fleiri og stærri sjóðir sem fylgja MSCI vísitölunni heldur en FTSE Russell. Ég hef ekki séð nákvæmt mat á umfangi innflæðis en mér skilst að það yrði töluvert meira. Það yrði mjög stórt ef við næðum að taka næsta skref í flokkun MSCI á næsta eða þarnæsta ári.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.