Íslenska netöryggisfyrirtækið SecureIT hefur gengið frá samstarfssamningi við bandaríska netöryggisfyrirtækið Resecurity sem felur í sér að SecureIT og Resecurity veita saman þjónustu á sviði netöryggis þar sem öryggislausnum beggja aðila er beitt. SecureIT er jafnframt orðinn umboðsaðili fyrir netöryggislausnir Resecurity á Norðurlöndunum. „Þetta er mjög stór áfangi fyrir lítið íslenskt fyrirtæki. Við höfum verið að sinna netógnargreiningu í mörg ár en erum að komast upp á mun hærra stig með þessum samstarfssamningi," segir Magnús Birgisson, forstjóri SecureIT. Að hans sögn er Resecurity meðal fremstu netöryggisfyrirtækja heims og það starfi fyrir fjöldann allan af stórfyrirtækjum vestanhafs og á alþjóðavísu, auk þess að þjónusta ríkisstjórnir, heri og leyniþjónustur víða um heim.

Magnús bendir á að Norðurlandaþjóðirnar séu meðal tæknivæddustu þjóða heims og því standi þjóðirnar frammi fyrir sívaxandi netógnum. Þörfin fyrir háþróaðar netöryggislausnir og þjónustu frá traustum samstarfsaðila hafi því aldrei verið meiri en nú. „Þar sem ógnin af netárásum verður sífellt meiri á Norðurlöndunum er mjög mikilvægt að fyrirtæki og stofnanir fjárfesti í öflugum netöryggisþjónustum og tækni. Auk þess er mikilvægt fyrir þau að eiga í nánu samstarfi við fyrirtæki sem sérhæfa sig í netöryggi, til þess að vernda sín verðmætu gögn og netkerfi. Það að tryggja netöryggi er einn mikilvægasti hlekkurinn í því að atvinnurekstur sé sjálfbær. Við erum því afar stolt af því að hafa samið við Resecurity um að veita viðskiptavinum okkar á Norðurlöndunum aðgang að þeirra öryggislausnum, sem eru fyrsta flokks."

Byggja upp örugg netkerfi og tækniumhverfi

SecureIT var stofnað í byrjun árs 2017 og fagnar fyrirtækið brátt fimm ára afmæli. Magnús segir fyrirtækið sinna ráðgjöf sem snýr að því hvernig viðskiptavinir geti byggt upp örugg netkerfi og tækniumhverfi. Viðskiptavinir SecureIT séu innlend fyrirtæki sem og fyrirtæki sem staðsett eru víða um Evrópu og Bandaríkin. „Okkar vinna snýst mikið um að koma upp ákveðnum verkferlum, leiðbeiningum og stöðlum sem starfsmenn viðskiptavinarins eru svo beðnir um að fylgja. Við göngum úr skugga um að raunlægar og tæknilegar varnir, sem og öryggisstillingar, mæti þeim kröfum sem fyrirtæki hafa sett sér í tengslum við netöryggis- og persónuverndarmál. Við framkvæmum ýmsar úttektir og öryggisprófanir til þess að tryggja netöryggi viðskiptavina. Hluti af því er m.a. að framkvæma netárásir á viðskiptavini okkar, með þeirra leyfi. Það gerum við til að koma auga á veikleika í kerfunum þeirra og sýnum hvernig hægt er að misnota þá og hverjar afleiðingarnar gætu orðið þegar um netglæpamenn er að ræða."

Magnús segir að samstarfið við Resecurity geri SecureIT kleift að bjóða upp á enn öflugri netöryggisþjónustu fyrir viðskiptavini sína sem felist í netógnavöktun og greiningu sem stöðugt verður í gangi. „Lausn Resecurity nýtir gervigreind til að sjálfvirknivæða ferli þar sem borin eru kennsl á netógnir, þær metnar og forgangsraðaðar og viðbrögð skilgreind og ákveðin gagnvart ógninni sem uppgötvaðist. Þetta geri það að verkum að við erum yfirleitt skrefi á undan netglæpamönnum. Resecurity fylgist með ýmsum svæðum á internetinu, en einnig undirheimanetinu (e. Dark web). Það sem er svo mikilvægt í þessu samstarfi okkar er að Resecurity hefur aðgang að gríðarlega stórum slíkum svæðum og vegna samstarfs þeirra við leyniþjónustur og heri hafa þeir enn meira aðgengi en annars væri."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .