*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 1. október 2015 15:19

Gera fjóra leigusamninga á mánuði

Reginn hefur gert 48 leigusamninga á undanförnum 12 mánuðum. 57% samninganna eru við fyrirtæki eldri en 40 ára.

Ólafur Heiðar Helgason
Haraldur Guðjónsson

Tækifæri eru til staðar á markaðnum með atvinnuhúsnæði. Þetta var sameiginlegt stef í málflutningi framsögumanna á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem haldinn var fyrr í dag.

Í kynningu Magnúsar Árna Skúlasonar hjá Reykjavik Economics kom fram að raunverð atvinnuhúsnæðis væri að hækka um 20% á ári um þessar mundir. Engu að síður er raunverðið aðeins rétt fyrir ofan 20 ára meðaltal.

Verð atvinnuhúsnæðis er mjög mismunandi  eftir hverfum. Þannig kom fram í kynningu Magnúsar að meðalfermetraverð verslunar- og skrifstofuhúsnæðis er um sex sinnum hærra í póstnúmerinu 101 en í Grafarvogshverfi.

Gunnar Valur Gíslason, framkvæmdastjóri hjá Eykt, fór yfir þau atriði sem fyrirtækið horfir á við ákvörðun fjárfestinga. Hann sagði að aðeins 5-10% af þeim hugmyndum sem bærust á borð fyrirtækisins væru í reynd metin arðsöm. Höfðatorg er stærsta uppbyggingarverkefni Eyktar og sagði Gunnar að Höfðatorg væri í raun vörumerki. Eykt fékk á sínum tíma þýska sérfræðinga til að sjá um ímyndarhlið Höfðatorgsverkefnisins og sagði Gunnar að það hafi aukið virði þess.

Vondu molarnir seldir

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, fór meðal annars yfir nýja fjárfestingastefnu félagsins sem gengur út á að vera virkur aðili á markaði með atvinnuhúsnæði. Fyrr á árinu keypti Reginn safn fasteigna, svokallað Fastengissafn, eins og Viðskiptablaðið greindi frá. Helgi líkti Fastengissafninu við konfektkassa, þar sem bestu molarnir voru settir í útleigu en verri molar seldir til annarra aðila.

Í kynningu Helga kom fram að Reginn hefur gert 48 leigusamninga síðustu 12 mánuði. 57% þeirra eru við fyrirtæki sem eru eldri en 40 ára. Aðeins 18% leigusamninganna eru við fyrirtæki yngri en 1 árs.

Helgi sagði að mikil aukning hafi orðið í útleigu á minna skrifstofuhúsnæði, en að lítil hreyfing hafi verið í útleigu stórs skrifstofuhúsnæðis. Hann sagði tækifæri vera til staðar varðandi húsnæði opinberra aðila. Hið opinbera ætti að skoða að færa sig úr dýrmætu húsnæði miðsvæðis og í hagkvæmara húsnæði.