Í gær var undirritaður í Þórshöfn í Færeyjum lánssamningur milli Landsstjórnar Færeyja og íslenska ríkisins. Samkvæmt samningnum lánar Landsstjórn Færeyja íslenska ríkinu 300 milljónir danskra króna.

Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynning frá Landsstjórn Færeyja og fjármálaráðuneyti Íslands sem birt er á vef ráðuneytisins.

Þar kemur fram að lánið frá Færeyjum er veitt til langs tíma og á hagstæðum kjörum. Það er viðbót við lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem nemur 2.100 milljónum Bandaríkjadala, og er veitt til stuðnings við efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda í samstarfi við sjóðinn.

„Lánunum er ætlað að efla gjaldeyrisvarasjóð Íslands í þeim tilgangi að koma á jafnvægi í íslenskum efnahagsmálum eftir fjármálakreppuna sem skall yfir í haust,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að þetta eru fyrsta tvíhliða lánið til Íslands af þessu tagi, en Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa sameiginlega gefið fyrirheit um að veita Íslandi gjaldeyrislán sem nemur 2.500 milljónum Bandaríkjadala.

Fram kemur að viðræður um gerð lánasamninga við þessi fjögur Norðurlönd standa nú yfir og er þess að vænta að þeim verði lokið á næstu vikum. Þá eru í gangi viðræður við fulltrúa Póllands og Rússlands um gjaldeyrislán til Íslands sem þau hafa gefið fyrirheit um.

Undir lánssamninginn milli Færeyja og Íslands skrifuðu Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Joannes Eidesgaard fjármálaráðherra Landsstjórnar Færeyja.

Með fjármálaráðherra voru í för Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, Jón Sigurðsson, formaður viðræðunefndar íslenska ríkisins um gjaldeyrislánasamninga og Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands.