Samning um að Íslenskir aðalverktakar byggi Molann, 2.500 fermetra verslunar- og skrifstofuhúsnæði í Fjarðabyggð, var undirritaður í dag af fulltrúum ÍAV og Smáratorgs, eignarhaldsfélagsins sem fjarmagnar byggingarframkvæmdirnar. Fór undirskriftin fram á sýningunni Austurland 2004, sem opnuð var í dag á Egilsstöðum.

Molinn á að rísa í miðbæ Reyðarfjarðar, milli Búðareyrar og Strandgötu, og
eru undirbúningsframkvæmdir þegar hafnar en fyrsta skóflustunga verður
tekin 21. júní nk. Er gert ráð fyrir að framkvæmdir fari strax á fullt
enda gera áætlanir ráð fyrir að verslunarmiðstöðin taki til starfa strax á
þessu ári, eða nánar til tekið í desember.

Um er að ræða 2.500 fermetra skrifstofu- og verslunarhúsnæði í fyrsta
áfanga og þegar liggur fyrir að lágvöruverslunin Krónan verði þar til
húsa. Landsbanki Íslands mun flytja útibú sitt á Reyðarfirði í Krónuna sem
og Verkfræðistofan Hönnun. Þá verða bæjarskrifstofur Fjarðabyggðar í
húsinu ásamt fjölmörgum öðrum aðilum sem viðræður standa nú yfir við. Er
m.a. reiknað með að þar verði sportvöruverslun, lyfjaverslun sem og fleiri
sérverslanir.

Samninginn í dag undirrituðu Gunnlaugur Kristjánsson, framkvæmdastjóri
þróunarsviðs ÍAV og Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Smáragarðs en það
félag er í eigu Norvíkur sem á Byko og fleiri verslanir. Vottar að
undirskriftinni voru Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og
Guðgeir Sigurjónsson, staðarstjóri ÍAV á Austurlandi.

Fór undirritunin fram í bás Fjarðabyggðar á sýningunni Austurland 2004 en
þar er sveitarfélagið að kynna þjónustu sína og þann mikla uppgang sem þar
er, í kjölfar virkjunar- og álversframkvæmda