Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, og Lars Toft, forstjóri Ericsson í Danmörku, sem heyrir beint undir Carl-Henric Svanberg, forstjóra Ericsson, skrifuðu í gær undir samning um kaup Símans og uppsetningu á langdrægum sendum fyrir þriðjukynslóðar farsímakerfi sem Síminn hyggst leggja mikla áherslu á í uppbyggingu sinni á komandi árum. Sævar Freyr segir að kerfið sé með svokölluðu UMGS-bandi sem er samhæft kerfi fyrir bæði 3G-farsímakerfi og farsímakerfi af annarri kynslóð sem nú er við lýði. Þetta er einn stærsti samningur sem Síminn hefur gert á síðustu árum.

Sævar Freyr vildi ekki nefna upphæðina að baki samningnum. Í samningnum felst að Síminn kaupir af Ericsson langdræga senda og miðlæg kerfi. Samningurinn nær til næstu þriggja ára. Síminn er að nokkru leyti farinn að vinna út frá samningnum en uppsetningin á sendunum hefst í sumar. Næsta haust ætlar fyrirtækið að hefja rekstur langdrægs þriðjukynslóðarkerfis.

Uppbyggingin heldur síðan áfram fram á næsta ár. Áður hafði Síminn gert ráð fyrir uppbyggingu á svokölluðu CDMA-kerfi úti á landi til að þétta dreifisvæði sitt en það hefði þýtt að notendur hefðu þurft annars konar síma til að nýta það. Horfið var frá þeim hugmyndum og ákveðið þess í stað að byggja á 3G-kerfi. „Eftir því sem best er vitað verður Ísland þriðja landið í heiminum til að innleiða langdrægt 3G-kerfi. Áður hefur það verið innleitt í Ástralíu og lítið kerfi hefur verið sett upp í Finnlandi. Það hefur verið langt og gott samstarf milli Símans og Ericsson. Við vorum í sambandi við annan frambærilegan og framsækinn birgi, Huawei í Kína. Við tókum hins vegar þá ákvörðun að ganga til samninga við Ericsson,“ segir Sævar Freyr.