*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Innlent 17. desember 2020 15:45

Skrifað undir samruna ferðaþjónusturisa

Búið er að skrifa undir samruna Eldeyjar og Kynnisferða. Með því verður til eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.

Ritstjórn
Hrönn Greipsdóttir framkvæmdastjóri Eldeyjar og Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Eva Björk Ægisdóttir

Ferðaþjónustufyrirtækin Eldey og Kynnisferðir hafa skrifað undir samkomulag um sameiningu félaga í eignasafni þeirra. Við það sameinast rekstur Kynnisferða, Arcanum Fjallaleiðsögumanna, Logakórs og Sportköfunarskóla Íslands, auk þess sem sameinað félag mun verða minnihlutaeigandi í Íslenskum Heilsulindum, Lava Center og Raufarhólshelli, að því er fram kemur í tilkynningu frá félögunum.

Með sameiningunni verður til eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Markmið sameiningarinnar er sagt vera að gera samrunaaðila betur í stakk búna fyrir öfluga viðspyrnu greinarinnar þegar ferðalög hefjast af fullum þunga, með auknum krafti í sölu- og markaðsstarfi.

Viðskiptablaðið greindi frá því í sumar að til stæði að auka hlutafé þeirra um 800 milljónir króna til að takast á við stöðuna í greininni. „Ég held að það mikilvægasta nú sé að gera félögin sveigjanleg þannig að þau geti beygt sig niður í ekki neitt en líka verið fljót að vaxa. Með sameiningunni búum við til félag með mjög breitt vöruframboð þannig að við getum náð til viðskiptavina frá því að þeir lenda í Keflavík og þar til þeir fara af landi brott á ný," sagði Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar við Viðskiptablaðið.

Samkomulagið er með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Ráðgjafar við viðskiptin voru fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance ásamt BBA//FJELDCO og Deloitte.

Verðmat á Kynnisferðum var lækkað um 58% á síðasta ári, úr 2,8 milljörðum króna í tæplega 1,2 milljarða króna í ársreikningi næststærsta hluthafa Kynnisferða. Þá var hlutafé Eldeyjar fært niður um helming í byrjun sumars, úr 3 milljörðum króna í 1,5 milljarða króna.