Ferðaþjónustufyrirtækin Eldey og Kynnisferðir hafa skrifað undir samkomulag um sameiningu félaga í eignasafni þeirra. Við það sameinast rekstur Kynnisferða, Arcanum Fjallaleiðsögumanna, Logakórs og Sportköfunarskóla Íslands, auk þess sem sameinað félag mun verða minnihlutaeigandi í Íslenskum Heilsulindum, Lava Center og Raufarhólshelli, að því er fram kemur í tilkynningu frá félögunum.

Með sameiningunni verður til eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Markmið sameiningarinnar er sagt vera að gera samrunaaðila betur í stakk búna fyrir öfluga viðspyrnu greinarinnar þegar ferðalög hefjast af fullum þunga, með auknum krafti í sölu- og markaðsstarfi.

Viðskiptablaðið greindi frá því í sumar að til stæði að auka hlutafé þeirra um 800 milljónir króna til að takast á við stöðuna í greininni. „Ég held að það mikilvægasta nú sé að gera félögin sveigjanleg þannig að þau geti beygt sig niður í ekki neitt en líka verið fljót að vaxa. Með sameiningunni búum við til félag með mjög breitt vöruframboð þannig að við getum náð til viðskiptavina frá því að þeir lenda í Keflavík og þar til þeir fara af landi brott á ný," sagði Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar við Viðskiptablaðið.

Samkomulagið er með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Ráðgjafar við viðskiptin voru fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance ásamt BBA//FJELDCO og Deloitte.

Verðmat á Kynnisferðum var lækkað um 58% á síðasta ári, úr 2,8 milljörðum króna í tæplega 1,2 milljarða króna í ársreikningi næststærsta hluthafa Kynnisferða. Þá var hlutafé Eldeyjar fært niður um helming í byrjun sumars, úr 3 milljörðum króna í 1,5 milljarða króna.