Reynir Jónsson var framkvæmdastjóri Strætó í sjö ár fram að nóvember síðastliðnum, en hann skilaði í vor meistararitgerð í viðskiptafræði við HÍ sem byggir á tíma hans hjá fyrirtækinu.

Í ritgerðinni, sem er læst, fjallar Reynir um stefnumótun og tekur hann raundæmi frá Strætó þar sem hann fer yfir þær stefnumótunaraðferðir sem notast var við. Þar á meðal er svokölluð pólitísk stefnumótun og tilgreinir hann dæmi þar sem hann telur slík öfl hafa verið að verki.

„Einhverjir eða eitthvað pólitískt verður til þess að menn fara ákveðnar leiðir. Það getur verið einn hópur eigenda í hlutafélagi sem hefur sína hagsmuni og ráða því að það er farið niður einhverja ákveðna götu sem einhverjir aðrir myndu kannski ekki fara,“ segir Reynir. Það geti haft misgóðar afleiðingar.

Hann segist þó ekki fella neina áfellisdóma í ritgerðinni og þykir honum enn mjög vænt um Strætó sem fyrirtæki.