Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, undirritaði í dag breytt skipurit forsætisráðuneytisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu, en með nýju skipuriti fjölgar málefnaskrifstofum í forsætisráðuneytinu um eina.

Skrifstofa þjóðhagsmála heitir sú sem bætist við, en fyrir má í ráðuneytinu finna skrifstofu yfirstjórnar, skrifstofu löggjafarmála, skrifstofu stjórnsýsluþróunar, skrifstofu fjármála og skrifstofu þjóðmenningar.

„Hlutverk skrifstofu þjóðhagsmála verður að greina stöðu og þróun efnahagsmála innanlands og utan, meta horfur í efnahagsmálum og móta tillögur í málaflokknum fyrir forsætisráðherra og ríkisstjórn á hverjum tíma. Skrifstofa þjóðhagsmála mun hafa umsjón með ráðherranefndum um efnahagsmál og ríkisfjármál, en viðbúið er að vægi og umfang nefndarstarfsins aukist verulega samhliða gildistöku nýrra laga um opinber fjármál, sbr. frumvarp sem er til meðferðar á Alþingi. Þá mun Hagstofa Íslands færast undir skrifstofu þjóðhagsmála," segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins.

Samhliða skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu þjóðhagsmála verður starf efnahagsráðgjafa forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar lagt niður.