Athygli vekur hversu ólík þróun launa er eftir starfshópum á almennum vinnumarkaði. Í Morgunkorni Glitnis segir að stjórnendur, sérfræðingar, tæknar og annað sérmenntað starfsfólk ásamt skrifstofufólki hafi hækkað í launum á bilinu 9,2-12,2% frá sama tíma fyrra árs á meðan verkafólk og iðnaðarmenn hafa hækkað um 8,3% annars vegar og um 7,7% hins vegar, en hægt hefur mun meira á hækkunum þessara hópa en annarra. Laun hafa einnig hækkað mismikið á milli atvinnuvega. Þannig hafa laun innan verslunar og þjónustu, samgangna og byggingastarfsemi hækkað á bilinu 8,9-10% frá fyrra ári en laun innan iðnaðar hækkað töluvert minna, eða um 7,4% en þar hægir töluvert á frá fyrri mælingum. Þá hafa laun innan fjármálaþjónustu, trygginga- og  lífeyrissjóðastarfsemi hækkað umtalsvert meira, eða um 15,5%. Miðað við atvinnuleysistölur er ekki að sjá að dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði og því líklegt að ólík launaþróun starfshópa endurspegli misjafna samkeppnisstöðu þeirra, segir í Morgunkorninu.