Eigendur Kaffihúss Vesturbæjar hafa fest kaup á  efri hæð hússins sem hýsir kaffihúsið og Brauð & Co en eftir kaupin eiga þeir húsið í heild sinni. Til stendur að bjóða þar skrifstofurými til leigu. Forsvarsmenn hópsins segjast ekki hafa viljað opna gistiað­stöðu á hæðinni þar sem það hefði ekki þjónað markmiðum þeirra um að  styrkja hverfið og samfé­lagið.

Pétur Marteinsson fyrrverandi knattspyrnumaður er meðal eigenda kaffihússins, en rætt var við hann í sérblaði Viðskiptablaðsins, Eftir vinnu , á sínum tíma þegar stefndi í opnun kaffihússins. Í samtali við Viðskiptablaðið sagði hann við opnun að hópurinn sem að kaffihúsinu standi hafi fundist eitthvað vanta í hverfið, en allir eigendur kaffihússins búa í hverfinu.

„Grundvallarpælingin var að setja upp kaffihús og bistro þar sem fólk í hverfinu getur komið, hvort sem það er í morgunmat, hádegismat eða á kvöldin og fengið sér kaffi og kruðerí þess á milli,“ sagði Pétur en hann er jafnframt einn eigenda KEX hostel við Skúlagötu.

Til viðbótar við rekstur Kaffihúss Vesturbæjar hefur félagið leigt út aðstöðu fyrir bakaríið Brauð og Co sem opnaði starfsemi í húsnæðinu um miðjan mars á síðasta ári, en Ágúst Fannar Einþórsson eigandi bakarísins sagði í samtali við Viðskiptablaðið að samstarfið við kaffihúsið byggðist fyrst og fremst á því að greiða leigu, en hann hefði þó hug á að færa sig yfir á heildsölumarkaðinn.