*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 16. nóvember 2011 19:10

Marel gerir út frá hóteli í Bangkok

Flóðin í Taílandi eru þau mestu í hálfa öld. Skrifstofur Marel fóru undir vatn og varð að flytja starfsemina á hótel í nágrenninu.

Ritstjórn
Starfsmenn Marel í Bangkok flytja tölvubúnað og gögn frá skrifstofum fyrirtækisins á heimagerðum fleka á hótel í grenndinni. Starfsmaður fyrirtækisins ytra tók myndina, sem er í fremur lágri upplausn.
Aðsend mynd

Marel varð að loka skrifstofum sínum í Bangkok í Taílandi um miðjan október vegna flóða þar í landi og flytja starfsemina yfir á nærliggjandi hótel. Starfsmenn fyrirtækisins ytra reyna eftir bestu getu Þegar verst lét var vatnið í kringum skrifstofur Marel 70 sentimetra djúpt. Dregið hefur úr flóðunum síðan mestu hamfarirnar gengu yfir og er vatnið nú á milli 15 til 20 sentimetra djúpt.

Samkvæmt upplýsingum frá Marel hafa flóðin hafi veruleg áhrif á starfsemi fyrirtækisins í Taílandi enda hafa þau gert bæði bæði samgöngur og samskipti í landinu mjög erfið. Þá hafa viðskiptavinir orðið fyrir skakkaföllum sem aftur valda því að verkefni frestast.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá starfsmenn Marel ná í varahluti og búnað á fleka.

 

Bandaríkin ætla að senda neyðaraðstoð

Marel hefur þær upplýsingar frá Sorayut Ujjaphuree, sem stýrir skrifstofu Marel ytra, að draga sé úr flóðunum í norðurhluta borgarinnar, þar sem skrifstofa fyrirtækisins er staðsett. Þá segir hann starfsfólki fyrirtækisins hafa tekist að ná í varahluti og annan búnað þangað. Á sama tíma og dregur úr flóðum í norðurhluta Bangkok eykst vatnshæðin í suðurhluta borgarinnar. Stjórnvöld gáfu það út í gær að draga sé úr flóðunum og geti borgarbúar gengið óhindrað um götur eftir hálfan mánuð.

Flóðin í Taílandi eru þau verstu í landinu í hálfa öld og hafa rúmlega 560 manns farist í hamförunum. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundaði með Yingluck Shinawatra, forsætisráðherra Taílands, í dag og lofaði hún eftir fundinn björgunaraðstoð frá Bandaríkjunum.

Marel er fjarri því eina fyrirtækið sem hefur orðið fyrir truflun á starfsemi sinni vegna þeirra. Japanski bílarisinn Toyota, bandaríski tölvurisinn Dell og fjölmörg fyrirtæki í Asíu sem framleiða varahluti í Taílandi hafa fundið illilega fyrir flóðunum.

Stikkorð: Marel Taíland