Stjórnarmenn í Auðkenni skrifuðu í síðustu viku rafrænt undir ársreikning félagsins með farsímum frá sjö stöðum í heiminum. Undirritanirnar fóru fram í þremur löndum; Þýskalandi, Bandaríkjunum og fjórum sveitarfélögum á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem skrifað er undir ársreikning með þessum hætti hér á landi og sennilega í öllum heiminum. Ársreikningurinn var lagður fram á stafrænu formi á aðalfundi Auðkennis í gær og verður fundargerð hans samþykkt með rafrænum undirskriftum. Umsýsla í kringum ársreikninginn og aðalfund er því að öllu leyti pappírslaus.

Íslenski hugbúnaðurinn CoreData-BoardMeeting var notaður til verksins en hann hefur íslenska hugbúnaðar- og þekkingarfyrirtækið Azazo (áður Gagnavarslan) þróað. Með CoreData BoardMeeting eru stjórnarfundir skipulagðir og í samvinnu við Auðkenni og finnska fyrirtækið Valimo er nú hægt að skrifa undir skjöl og samninga með rafrænum skilríkjum beint í CoreData.

„Rafræn skilríki hafa verið að ryðja sér til rúms á Íslandi og þau eru það sem koma skal. Með þeim er bæði hægt að spara pappír og ekki síst fyrirhöfn,“ segir Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, í tilkynningu. „Það er til dæmis ekki lengur þörf á að mæta á staðinn til að skrifa undir. Handhafar skrifa einfaldlega undir með rafrænum skilríkjum hvar sem þeir eru staddir í heiminum.“

Sem fyrr segir var skrifað undir ársreikninginn frá sjö stöðum í heiminum. Óskar Jósefsson, stjórnarformaður Auðkennis, var staddur í Vestmannaeyjum þegar hann skrifaði undir, Marteinn Már Guðgeirsson á Kirkjusandi í Reykjavík, Marina Candi á flugvellinum í Frankfurt í Þýskalandi, Sigurður Rúnarsson á Manhattan í New York, Þór Jes Þórisson í bíl í Hafnarfirði, Matthías Þór Óskarsson endurskoðandi hjá KPMG í Borgartúni í Reykjavík og Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, var staddur út í Gróttu á Seltjarnarnesi.