Nú þegar sumarið er handan við hornið, og sú röskun sem orðið hefur á skólastarfi vegna kórónuveirufaraldursins vonandi að mestu liðin hjá, myndu eflaust margir foreldrar þiggja aðstoð við að koma börnum sínum af stað við námsefnið svona áður en sumarfríin skella á fyrir alvöru.

Ætlunin með Evolytes-námskerfinu, sem nú hefur verið sett á markaðinn, er einmitt að aðstoða bæði foreldra og kennara við að vekja áhuga barna á náminu sem og gefa þeim tækifæri til að hafa góða yfirsýn yfir hvernig barninu gengur að tileinka sér lærdóminn.

Námskerfið samanstendur af námsbók, námsleik sem hægt er að spila í spjaldtölvum og svo upplýsingakerfi fyrir foreldra og kennara. Ætlunin er að kenna fyrstu skrefin í stærðfræði á skemmtilegan og árangursríkan hátt með námsefni sem sé miðað við einstaklingana og getu þeirra.

Írís Eva Gísladóttir, einn stofnenda Evolytes, telur að kerfið geti hjálpað mörgum foreldrum og börnum nvegna áhrifa af skertu skólahaldi vegna veiru og verkfalla á námsframvindu margra barna. Þannig geti notkun kerfisins hjálpað börnunum að vinna upp þann tíma og þekkingu sem þau hafa misst úr í námi sínu vegna ástandsins og þá sérstaklega ætti það að hjálpa börnum sem staðið hafa höllum fæti námslega séð.

Læra tólf sinnum hraðar

Íris segir kerfið unnið út frá rannsóknum í sálfræði og tölvunarfræði sem sýni að með aðferðinni sem þar sé beitt geti börn lært allt að tólf sinnum hraðar en án hennar, og börn sem hafi nýtt sér kerfið hafi náð betri árangri á prófum og jafnframt verið jákvæðari gagnvart námsefninu. Fyrst um sinn miðast kerfið við kennslu í stærðfræði en lítið sé því til fyrirstöðu að útvíkka notkun þess til annarra námsgreina seinna meir.

„Í rannsóknunum okkar sáum við mesta framför hjá börnum með undirliggjandi vandamál á borð við ADD og ADHD. Það einskorðast þó alls ekki við þann hóp og bráðger börn fá þarna líka áskorun við hæfi. Það græða allir á því að búa að góðum grunni í stærðfræði. Það var bráðskemmtilegt að fylgjast með nemendunum í kerfinu þar sem þau hafa greinilega virkilega gaman af þessu og eru sum að svara yfir þúsund spurningum á dag," segir Íris sem segir að börnunum finnist leikurinn skemmtilegur.

„Markmið okkar að skapa umhverfi um námið sem börn sækja sjálf í. Fyrstu notendurnir sem hafa verið að nýta sér fullmyndaða útgáfu námskerfisins hafa flogið áfram. Leikurinn gerist í sögudrifnum ævintýraheimi þar sem börn safna litlum dýrum, sem geta þróast og orðið að stórum og sterkum skrímslum ef vel er hugsað um þau, en hver aðgerð til þess kostar eitt rétt svar. Við drífum einnig áfram áhuga á leiknum með söguþráð sem er þræddur í gegnum leikinn í myndasöguformi. Fyrsta myndasagan úr heiminum mun fylgja í litlu myndasöguhefti með fyrstu kaupum á meðan birgðir endast."

Íris ásamt meðstofnanda sínum, Mathieu Gretti Skúlasyni, og samstarfsfélaga Sigurði Gunnari Magnússyni hafa unnið að fyrirtækinu allt frá árinu 2017, en þau tóku þátt í Gullegginu árið 2017 og komust þau þá í þriðja sætið. Þá hét verkefnið Project Monsters sem er vísun í efnivið tölvuleiksins, en árið 2018 tóku þau þátt í Startup Reykjavík undir nafninu Flow Education sem er vísun í sálfræðikenningarnar bakvið námsefnið.

Íris segir að þau hafi þurft að breyta um nafn til að geta tryggt félaginu sterka vörumerkjavernd. Síðustu ár hafa þau unnið að markaðssetningu og fullkomnun á kerfinu með aðstoð frá Tækniþróunarsjóði Íslands, sem leitt hefur til þess að þau hafa nú getað sett námskerfið í loftið á heimasíðunni evolytes.com .

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .