*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 6. september 2018 09:20

Skrímslin seljast vel í Japan

Árið 2017 voru Skrímslin fyrst sýnd á Tokyo International Gift Show eftir að japanskur dreifingaraðili hafði samband við fyrirtækið Monstra ehf.

Ritstjórn
Alma Björk Ástþórsdóttir, eigandi Monstra ehf.
Haraldur Guðjónsson

Árið 2017 voru Skrímslin fyrst sýnd á Tokyo International Gift Show eftir að japanskur dreifingaraðili hafði samband við fyrirtækið Monstra ehf og óskaði eftir því að selja Skrímslin í Japan en þau eru sérhönnuð úr íslenskri ull. Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um fyrirtækið.

„Það getur verið langt og strangt ferðalag að koma erlendri vöru inná markað í Japan svo við erum rétt að byrja. Við fengum styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands til þess að taka aftur þátt í sýningunni Tokyo International Gift Show. Í fyrra gáfum við út bókina „Skrímslin í Hraunlandi“ og mun hún koma út á japönsku síðar á þessu ári, en bókin hefur fengið sérstaklega mikinn áhuga á sýningunni,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

„Það er óhætt að segja að sýningin fari vel af stað. Litlu Skrímslin fá mikla athygli, sérstaklega hjá kaupendum frá Japan, Hong Kong og Suður Kóreu. Skandinavískar vörur eru mjög vinsælar á þessum slóðum og því mikil tækifæri á markaðnum fyrir íslenska hönnuði og framleiðendur. Við erum þakklát Nýsköpunarmiðstöð Íslands fyrir að gera okkur kleift að taka þátt í þessari sýningu. Þetta er stærsta vörusýning í Japan, með um 3.500 sýnendur á svæði sem spannar yfir 100.000m². Þáttakan hefur mikið að segja varðandi markaðssetningu í Asíu og mun vonandi verða til þess að varan komist á markað fljótlega og fái góðar viðtökur,“ segir jafnframt í tilkynningunni. 

Stikkorð: ehf. Monstra