Seðlabanki Evrópu nam ný lönd í gær þegar hann ákvað að veita fjármálastofnunum nánast ótakmarkað aðgengi að ódýrri skammtímafjármögnun. Ráðist var í gjörninginn með það að augnamiði að stemma stigu við lausafjárþurrð á mörkuðum.

Síðla mánudags tilkynnti bankinn að hann myndi veita fjármálastofnunum lán á 4,21% vöxtum -- sem er töluvert undir markaðsvöxtum. Í gær tilkynnti svo bankinn að hann hefði útdeilt ríflega 348 milljörðum evra til slíkra lána -- til samanburðar bendir breska blaðið Financial Times á að í venjulegu árferði hefði mátt gera ráð fyrir 180,5 milljarða evra lánsþörf.  Að sögn bankans tóku 390 fjármálastofnanir þátt í útboðinu og voru tilboðin á bilinu 4 til 4,35%.

Nánar er fjallað um aðgerð bankans í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins.