Skrúfað verður fyrir olíu- og gasframleiðslu í Noregi á morgun þar sem kjaraviðræður starfsmanna norskra olíufélaga og atvinnurekendur þeirra hafa steytt á skeri.

Breska ríkisútvarpið, BBC, rifjar það upp í umfjöllun sinni um málið að starfsmenn þriggja verkalýðsfélaga hafi verið í verkfalli í hálfan mánuði og sé kjaradeila þeirra komin í hnút.

Starfsmennirnir krefjast þess að geta hafið töku lífeyris að fullu 62 ára.

BBC bendir á að Norðmenn hafi þegar fundið fyrir verkfallinu. Noregur er í 5. sæti yfir umsvifamestu olíuútflutningsríki heims. Olíuframleiðslan hefur nú dregist saman um 13% og gasframleiðsla um 4%. Talið er að það hafi kostað þjóðarbúið 2,9 milljarða noskra króna, jafnvirði 61 milljarðs íslenskra króna.