Biobú hefur keypt meirihluta af hlutafé í Skúbb. Skúbb rekur ísbúðir við Laugarásveg 1 í Reykjavík og Bæjarhraun 2 í Hafnarfirði, og útsölustað með jógúrtskálar í Kvikk verslun Orkunnar við Vesturlandsveg. Þá er ís Skúbb seldur í matvöruverslunum, veitingahúsum og hótelum. Jóhann Friðrik selur hlutinn en hann er jafnframt einn stofnenda félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fyrsta ísbúð Skúbb var  opnuð Laugarásveg 1 í lok 2017.. Í vörum Skúbb hefur frá upphafi verið notuð lífræn mjólk frá Biobú í ís framleiðsluna og lífræn grísk jógúrt í jógúrtskálarnar. Biobú ehf. var stofnað árið 2002 og er sjálfstætt mjólkurbú, sem framleiðir og selur lífrænar mjólkurvörur. Stofnendur og eigendur fyrirtækisins eru hjónin Dóra Ruf og Kristján Oddsson.

Fráfarandi framkvæmdastjóri Skúbb, Jóhann Friðrik Haraldsson, kveður félagið sáttur. ,,Skemmtilegt verður að fylgjast með Skúbb vaxa í höndum Bióbús," segir Jóhann Friðrik, í tilkynningunni.

Aukin framleiðsla og hagkvæmni

Helgi Rafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Biobús, segist spenntur fyrir að fá Skúbb inn í reksturinn.
„Ég er afar spenntur fyrir nýjustu fjárfestingu fyrirtækisins. Þetta er rökrétt framhald í okkar rekstri en undanfarna mánuði hefur Biobú fjárfest í nýjum tækjabúnaði og undirbýr að auka mjólkurmagn í sumar með því að taka inn nýtt mjólkurbú sem er í lífrænu vottunarferli," segir Helgi Rafn, í tilkynningunni.

Sverrir Örn Gunnarsson, framleiðslu- markaðsstjóri Bióbú, segir kaupin auka hagkvæmni. ,,Undanfarin ár höfum við unnið náið með Skúbb og þekkjum því vel til fyrirtækisins. Með fjölgun á útsölustöðum Skúbb er nauðsynlegt að sameina framleiðsluna á einum stað til að hámarka hagkvæmni framleiðslunnar og gæði varanna," segir Sverrir, í tilkynningunni.