*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 29. febrúar 2020 13:33

Skuggabönkum fjölgar

Sótt er að hlutdeild bankanna, sem sligast undan þungum reglum og rekstri, í lánum bæði til heimila og fyrirtækja.

Júlíus Þór Halldórsson
Landsmönnum standa æ fleiri lánveitendur til boða, hvort sem er heimilum til fasteignakaupa, eða fyrirtækjum til rekstrarfjármögnunar.
Haraldur Guðjónsson

Svokölluð skuggabankastarfsemi hefur færst í aukana á öllum sviðum lánveitinga síðustu ár. Á sama tíma og bankakerfið sligast undan þungum rekstri, sköttum og regluverki, sjá aðrir sér tækifæri í að veita heimilum og fyrirtækjum bein lán, í stað þess að treysta á milligöngu bankanna.

Dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands segir aukna skuggabankastarfsemi ekki í eðli sínu slæma, en mikilvægt sé að hún sé á réttum forsendum. Ekki sé æskilegt að skattalegir hvatar beinlínis beini lánveitendum fram hjá bönkunum til lánveitinga, enda tapist við það mikilvægt aðhald sem felst í einstökum upplýsingum bankanna um tilvonandi lántakendur.

„Skuggabankastarfsemi er frekar loðið og illa skilgreint hugtak. Menn greinir töluvert á um hvað fellur þarna undir. Í grófum dráttum er um að ræða ýmsar tegundir fjármálaþjónustu sem bankar geta veitt, en aðrir líka,“ segir Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við HÍ. Þegar aðrir en bankar veiti slíka þjónustu kallist það skuggabankastarfsemi.

Lífeyrissjóðirnir færa sig upp á skaftið
Eftir að hafa haldið sig til hlés á íbúðalánamarkaði – að minnsta kosti með beinum hætti – á árunum eftir hrun, fóru lífeyrissjóðirnir inn á hann af krafti árið 2016. Hlutdeild þeirra í heildarútlánum til heimilanna var 16% í ársbyrjun 2016, en ári síðar var hún komin yfir 20%, og um síðustu áramót var hún rúm 30%, og hafði þá ekki verið hærri frá 2004.

Aðeins sjóðfélagar hafa lántökurétt hjá hverjum lífeyrissjóði fyrir sig, og framan af lánuðu sjóðirnir auk þess mun lægra hlutfall en bankarnir. Það hefur hinsvegar breyst. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku bjóða nú tveir þeirra 85% lán – svipað og bankarnir – til fasteignakaupa, en þó ekki til endurfjármögnunar.

Þungur rekstur og umhverfi hamlar bönkunum
Bankarnir hafa lítið getað gert til að halda í markaðshlutdeild sína, enda kjörin í fæstum tilfellum samkeppnishæf við sjóðina. Kemur þar ýmislegt til. Auk afar strangs regluverks – meðal annars lausa- og eiginfjárkvaða – þurfa bankarnir að standa undir sértækri skattlagningu á borð við aukinn tekjuskatt, og hinn svokallaða bankaskatt.

Í ofanálag eru bankar stórar og mannauðsfrekar stofnanir, og heldur þungir í rekstri. Viðskiptablaðið sagði frá því í síðustu viku að stóru bankarnir þrír hefðu átt sitt versta ár frá hruni í fyrra, en samanlögð arðsemi eiginfjár þeirra nam 4,5%.

„Munurinn á skattalegu umhverfi lífeyrissjóðanna og bankanna ýtir tvímælalaust undir það að lífeyrissjóðirnir láni beint frekar en að kaupa skuldabréf bankanna. Það er ekki gott fyrirkomulag, enda aldrei æskilegt að skattalegir hvatar séu þannig að þeir beini viðskiptum í einn farveg frekar en annan.“ Ekki sé óæskilegt í sjálfu sér að sjóðirnir láni beint, en að þeir geri það vegna þess að í því felst skattalegt hagræði sé það.

Stærðin skiptir máli
Einnig er sótt að bönkunum á markaði fyrir fyrirtækjalán. Ítarlegar upplýsingar banka um fjármál fyrirtækja gagnast þeim vel við ákvarðanatöku um lánveitingar til fyrirtækja, sér í lagi þar sem oft og minna er um veð og persónulegar ábyrgðir í slíkum lánum en lánum til heimilanna.

Þrátt fyrir það getur sambland téðra áhættuþátta og fyrrnefndra kostnaðarþátta bankareksturs leitt til afar hárra vaxta, og jafnvel lítils aðgengis að lánsfjármagni, fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Stærri fyrirtækjum standa hinsvegar mun hagstæðari kjör til boða.

Skráning í kauphöll opnar á milliliðalausa fjármögnun fram hjá bönkunum með útgáfu hluta- eða skuldabréfa, sem seld eru beint til fjárfesta á borð við lífeyrissjóðina.

Í meistararitgerð um aukið vægi skuggabanka í fjármögnun atvinnuhagkerfisins kemur fram að fagfjárfestasjóðir hafi verið að ryðja sér hratt til rúms á fyrirtækjalánamarkaði síðustu 5 ár. Í lokaorðum útdráttarins segir orðrétt: „Viðskiptabankarnir þurfa mögulega að hafa varann á fyrir aukinni samkeppni frá þeim í atvinnufjármögnun. Sérstaklega ef ávöxtun ríkisbréfa heldur áfram að falla.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: bankar lífeyrissjóðir