Skuggahagkerfið í Lúxemborg skilar um 8,2% af vergri landsframleiðslu þar í landi að því er kemur fram í frétt á vef Luxemburger Wort. Þetta er lægsta hlutfall í landinu síðustu tíu ár, en bent er á að árið 2003 var umfang skuggahagkerfisins um 9,8% af VLF.

Með skuggahagkerfinu er átt við efnahagslega starfsemi sem fer fram án opinbers eftirlits eða skattlagningar, t.d. þegar fyrirtæki vantelja tekjur, þegar fólk vantelur vinnustundir og almennt þegar komist er hjá skattgreiðslu.

Af þeim 31 Evrópuríkjum sem skoðuð voru er hlutfallið það þriðja lægsta í Lúxemborg á eftir Austurríki (7,9%) og Sviss (7,8%). Umfang skuggahagkerfisins er mest í Búlgaríu (32,3%), Rúmeníu (29,6%) og Króatíu (29,5%).