Skuldabréfaútgáfa upp á 18,3 milljarða króna til að endurfjármagna lántökur vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu gæti orðið að veruleika í janúarmánuði. Þetta kemur fram í frétta Fréttablaðsins í dag. Í blaðinu segir að Portus, sem heldur utan um eignarhald Hörpunnar, hafi átt í viðræðum við banka um að sjá um útgáfuna og séu þær langt komnar. Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar, segist í samtali við Fréttablaðið sannfærður um að mikil eftirspurn verði eftir bréfunum, sérstaklega vegna þess að lítið er um fjárfestingartækifæri á Íslandi fyrir stóra fjárfesta á borð við lífeyrissjóði um þessar mundir.

Portus er dótturfélag Austurhafnar-TR, sem er eigandi Hörpu. Austurhöfn er í 54% eigu íslenska ríkisins og 46% eigu Reykjavíkurborgar. Félagið tók sambankalán hjá Landsbanka, Arion banka og Íslandsbanka í janúar 2010 til að fjármagna byggingu hússins. Það lán dugði þó ekki fyrir stofnkostnaði og því samþykktu eigendur Austurhafnar, íslenska ríkið og Reykjavíkurborg, að lána félaginu 730 milljónir króna til viðbótar í lok síðasta árs. Til stendur að endurgreiða bæði sambanka- og eigendalánið þegar skuldabréfaútgáfan hefur verið seld.