Skuld hvers mannsbarns á Íslandi gæti numið 4,8 milljónum króna vegna bankahrunsins sé miðað við að Íslendingar taki ellefu milljarða dala lán.

Þegar er miðað við að Íslendingar fái fimm milljarða dala frá IMF, hinum Norðurlöndunum og fleirum. Þá hefur verið nefnt að taka þurfi fimm milljarða dala lán til viðbótar svo hægt verði að standa við skuldbindingar vegna Icesave-reikninga Landsbankans.

Vilja vita áhrifin á skattbyrði landsmanna

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur óskað eftir að úttekt verði gerð á því hvaða áhrif skuldbindingar íslenskra stjórnvalda fyrir hönd þjóðarinnar gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum komi til með að hafa á skattbyrði landsmanna til framtíðar.

Formaður  þingflokksins, Ögmundur Jónasson, hefur ritað formanni efnahags- og skattanefndar Alþingis bréf þar sem hann óskaði eftir því að málið kæmi til skoðunar hjá nefndinni.