Enn hefur Reykjaneshöfn ekki fengið greiddar 162 milljónir króna innborgun inn á kaupverð lóðarinnar undir kísilver United Silicon í Helgavík.

Dráttarvextir vegna vanskilanna hafa nú náð 18 milljónum króna, að því er kemur fram í DV í dag.

Tvær af fjórum greiðslum ógreiddar

Árið 2012 seldi höfnin lóðina til félagsins Stakksbraut 9 ehf. á 362 milljónir króna en einkahlutafélagið Geysir Capital keypti hana árið 2014 af því félagi.

Kaupverðinu hafði upphaflega verið skipt í fjórar greiðslur, hefur félagið greitt tvær þeirra og nemur greiðslan 200 milljónum króna en Geysir Capital á enn eftir að ganga frá síðustu tveimur greiðslunum.

Nemur önnur þeirra 100 milljónum króna og var hún á gjalddaga í byrjun nóvember í fyrra. Fór hún í innheimtu um síðustu áramót.

Misvísandi ummæli um þarfir hafnarframkvæmda

Félagið hefur hins vegar haldið aftur af greiðslum vegna tafa á hafnarframkvæmdum í Helguvík að sögn stjórnarformanns þess.

Í ágúst 2015 sagði þó Magnús Ólafur Garðarsson starfandi stjórnarmaður í United Silicon í viðtali við DV að hafnaraðstaðan væri fín eins og hún væri.

„Okkur er alveg sama enda þurfum við ekki á þessari stækkun að halda næstu árin þar sem hafnaraðstaðan er fín eins og hún er,“ sagði Magnús þá en ekki náðist í stjórnarformann félagsins við vinnslu fréttarinnar.

„Hins vegar er alveg rétt að þegar við stækkum verksmiðjuna og fáum ofn númer tvö þá höfum við samið um að hafnarkanturinn verði lengdur til vesturs en eins og ég segi þá liggur svo sem ekkert á því fyrir okkur.“