Grímur Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Milestone, sem var í eigu þeirra Karls og Steingríms Wernerssona, hefur staðfest að tíu milljarða skuld þeirra auk Guðmundar Ólasonar, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, við þrotabúið sé nú gjaldfallin.Í mars voru þremenningarnir dæmdir til að greiða þrotabúinu 5 milljarða króna, auk vaxta og verðbóta, en komi í ljós að Karl sé eignarlaus sé viðbúið að hann verði úrskurðaður gjaldþrota. Þetta er haft eftir Grími í frétt RÚV .

Tvítugur sonur Karls hefur eignast viðskiptaveldi föður síns, lyfsölukeðjuna Lyf og heilsu, ásamt verulegum fasteignum, bifreiðum og hlutum í fyrirtækjum, en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig hann eignaðist hlutina. Samningum gjaldþrota félaga og einstaklinga sem teljast hafa rýrt eignir félagsins má rifta samkvæmt lögum, svo ef Karl verði úrskurðaður gjaldþrota öðlast skiptastjóri hans heimild til þess að skoða eignayfirfærslu hans til sonar hans.

Getur skiptastjóri þrotabús hans þá metið hvort hún hafi verið gerð til að forða þeim undan yfirvofandi gjaldþroti, sem gæti verið refsivert, og varðað allt að sex ára fangelsi. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu segir ekki óeðlilegt að afgreiðsla fjárnámsbeiðna hjá embættinu taki tvo mánuði, en ákveði Karl að áfrýja dómi héraðsdóms frá því í mars frestast fjárnámið þangað til dómur Hæstaréttar hefur verið kveðinn upp. Áfrýjunarfresturinn rennur út 8. júní.