Gullnámufyrirtækið Acacia sem á þrjár gullnámur í Tansaníu hefur verið rukkað um 190 milljarða dollara í skatt eða því sem jafngildir 20.134 milljörðum króna miðað við gengi dagsins í dag. Félagið er skráð í Kauphöllina í Lundúnum og hefur gengi hlutabréfa félagsins lækkað um 7,7 prósentustig það sem af er degi. Félagið hefur lent í hávaðarifrildi við tansanísk yfirvöld. Yfirvöld saka fyrirtækið um að hafa ekki gefið allt upp til skatts, en fyrirtækið segir það ekki rétt.

Í yfirlýsingu á vefsíðu Acacia segir að fyrirtækið hafi ávallt staðið í skilum varðandi greiðslur á bæði sköttum og gjöldum. Yfirvöld í Tansaníu segja aftur á móti að fyrirtækið hafi starfað ólöglega og hafi vanmetið magnið af gulli sem það hafi flutt út úr landi. Fyrr í mánuðinum breyttu stjórnvöld í Tansaníu lögum er vörðuðu námufyrirtæki. Útflutningsbann á bæði gulli og kopar hefur verið í gildi frá því í mars á þessu ári í Afríkuríkinu. Lagabreytingarnar tengjast áherslum forseta Tansaníu, John Magafuli, sem hefur setið í embætti frá árinu 2015, og var kjörinn til að taka á spillingu í ríkinu.

Acacia, sem er í meirihlutaeigu kanadíska fyrirtækisins Barrick Gold, segir að bannið hafi gífurleg neikvæð áhrif á fyrirtækið, og ef því verði ekki aflétt gæti það leitt til þess að fyrirtækið verði að hætta starfsemi sinni þarlendis, þar sem að 50 prósent af framleiðslu fyrirtækisins í Tansaníu tengist útflutningi á gulli. Alls eru 36.200 störf í húfi, sem eru bæði óbeint og beint tengd fyrirtækinu. Acacia rekur þrjár gullnámur í Tansaníu: í Bulyanhulu, Buzwagi og North Mara. Fjallað er um málið í frétt breska ríkisútvarpsins - BBC.