Landspítalinn á tæplega 190 milljóna króna kröfur á einstaklinga án sjúkratrygginga sem fengið hafa þjónustu, að langstærstum hluta til vegna erlendra ríkisborgara að því er Fréttablaðið greinir frá.

Komur erlendra ríkisborgara á Landspítalann hafa þrefaldast frá árinu 2013, en þá komu 1.053 ótryggðir einstaklingar á spítalann en síðustu tvö ár hafa þeir verið í kringum 2.700 manns. Staðgreiðsluhlutfall ósjúkratryggða er um 66% að sögn Landspítalans, en lengri tíma tekur að fá legureikninga greidda enda þá oft tryggingafélög sem eru greiðendur.

Sá einstaklingur sem skuldar mest skuldar í heildina 8,4 milljónir króna, en sá næsti skuldar 7,7 milljónir. Í þessum tölum er miðað við stöðuna í október á síðasta ári en samtals skulduðu sjö einstaklingar 41,5 milljónir.