Fjárfestingabankinn Merrill Lynch gaf út skýrslu um íslensku bankana síðastliðinn föstudag sem ber titilinn: Of snemmt að segja (e. Too soon to tell), segir greiningardeild Glitnis.

?Niðurstaða skýrslunnar er að skuldaraálag á fjármögnun bankanna sé hátt og fyrir því séu góð rök og að það sé of snemmt fyrir markaðinn að lækka álagið. Því til stuðnings nefnir fjárfestingabankinn að ferli bankanna í að mæta gagnrýni erlendra greiningaraðila sé rétt hafið og íslenska hagkerfið sé rétt að byrja að kólna," segir greiningardeildin.

Í skýrslunni er sagt að lánveiting Glitnis til Milestone vegna viðskipta þeirra með Sjóvá sé áhyggjuefni, þar segir einnig að ekki sé ?full sýnt að FL Group styðji stefnu stjórnenda bankans," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir athyglisvert er að skýrsluhöfundar gagnrýna Fjármálaeftirlitið fyrir að sýna ekki frumkvæði í að hafa áhrif á bankana til að minnka krosseignarhald, lán til hluthafa, lán til stjórnenda og þeirra hluta sem eiga sér stað í Straumi-Burðarási.

?Bankarnir hafi brugðist við gagnrýni markaðarins og vinni nú að minnka krosseignarhald og lán til hluthafa. Að mati skýrsluhöfunda hefði Fjármálaeftirlitið átt að hafa frumkvæði að því að bankarnir leggðu í þessa vinnu," segir greiningardeildin.