Útlínur þeirra timburmanna sem íslenska þjóðin verður að taka á sig út vegna hruns bankanna og útrásarævintýrsins eru farnar að skýrast örlítið. Þótt margt sé þar enn óljóst er allt útlit fyrir að það muni taka hið opinbera, og þar með íslenska skattgreiðendur, áratugi að greiða skuldirnar niður.

Þeir eru vafalaust margir sem fagna því að loks hilli undir það að íslensk stjórnvöld fái aðgang að erlendu lánsfé og þá með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins enda kannski ekki vanþörf á eins og sakir standa nú.

Samkvæmt heimildum Financial Times er búist við að um einn milljarður dala komi frá sjóðnum en að norrænu seðlabankarnir og sá japanski muni leggja fram fimm milljarða dala, jafngildi nær 680 milljarða miðað við skráð gengi Bandaríkjadollars.

Þótt þessar fréttir hafi ekki enn verið staðfestar né heldur greint frá því hvernig „hjálparpakkinn“ verður og nákvæmlega hvaða skilyrðum hann verður háð liggur þó fyrir að skuldir hins opinbera munu vaxa gríðarlega.

Og, svo vísað sé til líkingamáls einnar af sögum Guðbergs Bergssonar, þá þýðir það að dularfullir menn með einhverja brúsa munu sí og æ knýja dyra hjá fólki og krefjast þess að það borgi brúsana hvort sem því líkar betur eða verr.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .