Stefnir hefur sett á fót lánasjóðinn SÍL 2 hs. Sjóðurinn kláraði fyrstu innköllun frá fjárfestum í síðustu viku með útgáfu skuldabréfs sem skráð var á First North. Í tilkynningu á vef Stefnis segir að einkum fagfjárfestar hafi lagt sjóðnum til fé.

Sjóðurinn starfar á lánamarkaði til innlendra fyrirtækja og ávaxtar fjármuni með útgáfu skuldabréfs.

Fyrsta fjárfesting SÍL 2 nam 3.170 milljónum króna en áskriftarloforð sjóðsins nema 7 milljörðum króna. Fjárfestingartímabil sjóðsins eru 30 mánuðir en skuldabréfið er á gjalddaga í lok árs 2029.

Í tilkynningunni segir að Stefnir, dótturfélag Arion banka, stýri nú um 25 milljörðum króna í sérhæfðum sjóðum sem fjárfesta í lánum til fyrirtækja „og sjáum við fram á að eignaflokkurinn muni stækka nokkuð á næstu misserum“.