Skuldabréfið sem fjárfestingasjóður Fyrirtækjabréfa Landsbankans keypti af Björgólfi Guðmundssyni á 400 milljónir króna í byrjun árs 2005 var um tvö prósent af heildarverðmætum sjóðsins í árslok 2004. Heildareign hans þá var 20,1 milljarður króna samkvæmt ársuppgjöri Landsvaka, rekstarfélagi sjóða Landsbankans. Samt finnst ekkert um kaupin í fundargerðum fjárfestingaráðs sjóðsins.

Björgólfur notaði skuldabréfið til að fjármagna stofnun minningasjóðs um Margréti Björgólfsdóttur, dóttur sína, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Sjóðurinn var stofnsettur í janúar 2005. Björgólfur var á þessum tíma aðaleigandi Landsbankans og formaður bankaráðs hans.

Brot á fjárfestingastefnu sjóðsins

Samkvæmt fjárfestingastefnu sjóðs Fyrirtækjabréfa Landsbankans átti hann að aðallega að fjárfesta í „skuldabréfum traustra fyrirtækja og fjármálastofnanna.“ Þar er einnig tilgreint að áhersla sé lögð á „öruggar eignir og stöðugleika.“ Ljóst er að skuldabréf útgefið af einstaklingi samræmist ekki hinni yfirlýstu fjárfestingastefnu. Vegna þessa hefur Landsbankinn vísað málinu til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra og Fjármálaeftirlitsins (FME). Heimildir Viðskiptablaðsins herma að umrætt skuldabréf sé það eina sem sjóðir Landsvaka hafi nokkru sinni keypt af einstaklingi.

Greitt af bréfinu fram að hruni

Greitt var af skuldabréfinu fram að bankahruni. Nú nema eftirstöðvar þess um 190 milljónum króna og ljóst að Björgólfur getur ekki greitt þær þar sem að hann hefur verið úrskurðaður gjaldþrota. Persónulegar ábyrgðir hans og skuldir námu um 98 milljörðum króna við gjaldþrot. Hlutfall skuldabréfsins af heildarverðmæti sjóðsins hafði lækkað töluvert áður en að honum var slitið vegna þess að greitt hafði verið af skuldabréfinu. Stærð fyrirtækjabréfasjóðsins var 21,2 milljarður króna um mitt ár 2008 og skuldabréf Björgólfs því um 0,9 prósent af heildareignum hans þá.

Nýi Landsbankinn ber tjónið

Í tilkynningu sem Nýi Landsbankinn sendi frá sér á föstudag vegna kaupanna á skuldabréfi Björgólfs kemur fram að þegar ljóst hafi verið að „skuldari bréfsins myndi ekki standa skil á eftirstöðvum við lokun sjóðsins var það óhjákvæmileg niðurstaða, sem m.a. er byggð á óháðri lögfræðiúttekt, að Landsvaki yrði að bera tjónið sem af brotinu leiðir. Hlutdeildarskírteinishafar verða því ekki fyrir tjóni af þessum sökum.“ Því er það eigandi Landsvaka, Nýi Landsbankinn, sem ber tjónið vegna hins ógreidda skuldabréfs. Eigandi Landsbankans er íslenska ríkið. Sjóðsfélögum í fyrirtækjabréfasjóðnum var ekki greitt út í einni greiðslu líkt og þeim sem áttu í peningamarkaðssjóðum bankanna heldur fá þeir greitt eftir því sem Landsvaka tekst að koma eignum sjóðsins í verð.

Skuldabréfið keypt í andstöðu við almenna starfsmenn

Í tilkynningu Landsbankans um málið segir ennfremur að engar bókanir hafi fundist í fundargerðum Fjárfestingaráðs Fyrirtækjabréfa Landsbankans um kaupin á skuldabréfi Björgólfs og að kaupin hafi verið gerð í andstöðu við almenna starfsmenn. Þeir starfsmenn sem tóku ákvörðun um kaupin eru allir sagðir hafa hætt störfum fyrir Landsbankann eða Landsvaka. Ekki er tiltekið hvaða starfsmenn um ræðir.