Skuldabréfið sem fjárfestingasjóður Fyrirtækjabréfa Landsbankans keypti af Björgólfi Guðmundssyni á 400 milljónir króna árið 2005 var notað til að fjármagna stofnun minningarsjóðs um Margréti Björgólfsdóttur, dóttur Björgólfs, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Sjóðurinn var stofnaður í byrjun árs 2005 þegar Björgólfur og kona hans lögðu 500 milljónir króna inn í hann. Umrætt skuldabréf er það eina útgefið af einstaklingi sem sjóðir Landsbankans keyptu nokkru sinni. Á heimasíðu sjóðsins kemur fram að 2/3 hans hafi tapast vegna efnahagsvanda síðustu mánuða og að mjög ólíklegt sé að úthlutað verði úr sjóðnum á þessu ári.

Er persónulega gjaldþrota og getur ekki greitt

Sömu heimildir herma að stjórnendur bankans hafi talið þetta eðlilega leið til að fjármagna umrætt verkefni.Greitt var af skuldabréfinu framan af en eftirstöðvar þess í dag eru um 190 milljónir króna.

Björgólfur Guðmundsson var úrskurðaður gjaldþrota í lok júlí síðastliðins og mun því ekki geta greitt það sem upp á vantar. Persónulegar ábyrgðir hans og skuldir námu þá um 98 milljörðum króna.

Tryggingar voru upphaflega lagðar fram fyrir greiðslu bréfsins í innstæðum Björgólfs á bankareikningi í Landsbankanum í Lúxemborg, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Við efnahagshrunið á Íslandi í október í fyrra voru hins vegar allar innstæður þar frystar og Nýi Landsbankinn (NBI) hefur ekki haft aðgang að þeim.

Ekki liggur fyrir af hverju Björgólfur þurfti að gefa út skuldabréf til að fjármagna einkaverkefni þegar að hann átti innstæður sem hann gat lagt sem veð fyrir greiðslu skuldabréfsins.