Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar um að ALM Fjármögnun ehf. bæri skylda til að greiða Línulögnum ehf. vegna ofgreiðslna á skuldabréfi. Rétturinn taldi að við skuldaraskipti hefði viðskiptabréf, sem var þrætuefni málsins, breyst í almenna fjárkröfu.

Umrætt viðskiptabréf var gefið út af Suðurhlíð ehf. til Dróma hf. árið 2010. Það bréf kom í stað gengistryggðs láns sem Suðurhlíð hafði tekið hjá SPRON. Drómi seldi Hildu ehf. bréfið árið 2015 sem síðar seldi það til ALM Fjárfestinga árið 2016.

Línulagnir tóku við sem skuldari árið 2014 og hefur bréfið verið greitt upp að fullu. Þegar skuldaraskipti urðu á því samþykkti Arion banki, fyrir hönd Dróma, skiptin og voru þau árituð á bréfið sjálft. Í annarri yfirlýsingu, sem ekki var skrifuð á bréfið sjálft, staðfesti bankinn fyrir hönd kröfueiganda „að fyrirvari um betri rétt skuldara framselst með kröfunni til Línulagna ehf.“

Félagið taldi, með hliðsjón af gengislánadómum Hæstaréttar, að ALM hefði verið óheimilt að krefja um vexti aftur í tímann með þeim hætti sem gert hafði verið. Krafðist félagið af þeim sökum endurgreiðslu á ofgreiddum vöxtum. Sakarefni málsins var skipt í héraði þannig að eingöngu var leyst úr þrætu um greiðsluskylduna sjálfa en ekki upphæð.

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla um kröfuhafaskipti að nýr kröfuhafi geti ekki öðlast meiri rétt á hendur skuldara en sá sem framselur kröfuna. Veigamikla undantekningu frá þeirri meginreglu má finna hvað viðskiptabréf varðar en almennt er lagt til grundvallar að krafa sé þess efnis sem viðskiptabréf ber með sér. Ekki er til geirnegld regla um hvað telst til viðskiptabréfa og hvað ekki en af tilskipun 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf er óumdeilt að umrætt skuldabréf taldist viðskiptabréf.

„Skuldabréfið var áritað um skuldaraskiptin af Arion banka hf. fyrir hönd Dróma hf. Til að fullnægt væri framangreindum skilyrðum þess að um skuldabréf væri að ræða hefði hinn nýi skuldari þurft skriflega að lýsa því yfir einhliða og skilyrðislaust að hann lofaði að greiða kröfuna og hefði sú skriflega yfirlýsing þurft að koma fram á bréfinu sjálfu til þess að það gæti talist skuldabréf eftir skuldaraskiptin,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Yfirlýsingin sem áður var getið dugði ekki til að um viðskiptabréf væri að ræða. Meðal annars benti rétturinn á að kröfuhafi hafi samþykkt skuldaraskiptin „með fyrirvara um að betri réttur skuldara framseldist með kröfunni“ en þar með fullnægði krafan því ekki að vera einhliða. Þar sem ekki var um skuldabréf að ræða af þeim sökum var krafan talin almenn fjárkrafa og glötuðu Línulagnir ehf. því engum mótbárum. Ekki var talið að Línulagnir hefðu glatað rétti sínum sökum tómlætis og dómur Landsréttar því staðfestur.