Velta með skuldabréf hefur verið mikil það sem af er degi eða um 10,5 milljarðar króna. Mestu viðskiptin hafa verið með óverðtryggð ríkibréf eða fyrir 9 milljarða. Hefur ávöxtunarkrafa þeirra bréfa lækkað það sem af er degi, nema á stystu bréfunum sem eru á gjalddaga í mars 2010.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins má túlka þessar hreyfingar þannig að svo virðist sem markaðsaðilar telji auknar líkur á að Icesave deilan leysist með jákvæðum hætti.. Eftirspurn eftir óverðtryggðum ríkisbréfum jókst eftir fréttir af hugsanlegri niðurstöðu í Icesave og ávöxtunarkrafan lækkaði. Má segja að væntingar um vaxtalækkun og lægri verðbólgu hafa því aukist. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði við síðustu vaxtalækkun að vextir hefðu lækkað meira ef Icesave málið væri leyst. Nú reikna fjárfestar með því samkvæmt því sem má lesa útúr hreyfingum á markaði.

Þetta þýðir að vextir hafa farið lækkandi. Séu vextir á tíu ára óvertryggðum skuldabréfum skoðaðir hafa þeir lækkað úr rúmum 8% um miðjan janúar  í 7,5% sem þykir mikil breyting á skuldabréfamarkaði. Eftir að forsetinn synjaði Icesave lögunum staðfestingar hafa nokkrar jákvæðar fréttir haft þessi áhrif. Meðal annars þær að verðbólgan virðist ekki ætla að verða eins mikil og væntingar stóðu til um.