Skuldabréf að verðmæti 750 milljóna bandaríkjadala sem gefin voru út af Glitni og áttu að falla á gjalddaga í gær, miðvikudag, hafa enn ekki verið innleyst.

Á heimasíðu bandaríska fjármálatímaritsins Forbes er haft eftir talsmanni Fjármálaeftirlitsins íslenska (FME) að skuldabréfin hafi ekki verið greidd.

Gjaldföllnu skuldabréfin voru svokölluð flotvaxtabréf, eða skuldabréf með breytilegum vöxtum.

Euroclear, sem er miðstýrð verðbréfamiðstöð staðsett í Brussel, segist ekki geta sagt til um það hvort skuldabréfin séu greidd eða ekki. Það séu leynilegar upplýsingar sem  séu aðeins fyrir umjóðendur.

Euroclear telji skuldabréf til vanskila samkvæmt fyrirmælum útgefanda eða ef þau hafi ekki verið greidd þremur mánuðum eftir greiðsludag.