Skuldabréf gefin út af HS Orku hf. hafa verið færð á athugunarlista. Þau eru færð með vísan til ábendingar endurskoðenda í hálfsársuppgjöri félagsins.

Eiginfjárstaða félagsins er lægri en lánasamningar gera ráð fyrir.

HS Orka tapaði 2,5 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 612 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Lækkunin er sögð stafa af lækkun á framtíðarvirði raforkusamninga sem HS Orka hefur gert við stóriðju. Lækkunin nemur um 4,1 milljarði króna en umræddir samningar eru beintengdir við þróun heimsmarkaðsverðs á áli.

Uppfært klukkan 10:38:

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, segir að HS Orka hafi fengið undanþágu frá þremur lánadrottnum sínum í fyrra þess efnis að fyrirtækinu væri heimilt að vera með eiginfjárhlutfall undir því sem lánasamningar tiltaka út þetta ár. „Eiginfjárhlutfallið okkar í fyrra fór niður í 16%. Þá gerðum við tímabundið samkomulag við bankanna um undanþágu sem gildir út þetta ár. Við erum í dag nánast með eiginfjárhlutfallið sem við eigum að vera með samkvæmt lánasamningum. Endurskoðandinn setti þennan fyrirvara í reikninginn vegna þessa. Það er ofurvarfærni að okkur finnst. En þess vegna tekur Kauphöllin upp á þessu.“

Lánadrottnarnir  sem um ræðir eru Norræni fjárfestingabankinn, Evrópski fjárfestingabankinn og Þróunarbanki Evrópuráðsins.