Afborganaferill skuldabréfa á milli gamla og nýja Landsbankans er of þungur fyrir hagkerfið í heild og verður að lengja í þeim eða endurfjármagna, að mati Seðlabankans. Fram kemur í ritinu Fjármálastöðugleiki sem kom út í dag, að mikil endurfjármögnunaráhætta sé í erlendum gjaldmiðlum enda séu áætlaðar afborganir af erlendum lánum innlendra aðila, annarra en ríkissjóðs og Seðlabankans, fram til ársins 2018 þungar.

Seðlabankinn segir að án lengingar eða umtalsverðrar endurfjármögnunar telur hann að ekkert svigrúm sé til þess að nýta viðskiptaafgang í því skyni að hleypa út krónueignum erlendra aðila á næstu árum. Samspil losunarhafta og endurgreiðslna á erlendum lánum er samkvæmt þessu helsta áhættan í fjármálakerfinu.

Seðlabankinn segir að áætlaðar afborganir fari úr 87 milljörðum króna á næsta ári í 128 milljarða árið 2015 þegar afborganir af skuldabréfum milli gamla og nýja Landsbankans hefjast af fullum þunga. Til samanburðar er áætlað að undirliggjandi viðskiptaafgangur síðasta árs hafi numið 52 milljörðum króna. Verði viðskiptaafgangur á næstu árum svipaður og hann hefur verið á síðastliðnum árum, um 3,5% af landsframleiðslu þurfi aðrir en ríkissjóður og Seðlabanki að endurfjármagna sem nemur um 265 milljörðum króna fram til ársins 2018.