Skuldabréf gefin út af Ríkisútvarpinu ohf. hafa hlotið athugunarmerkingu hjá Kauphöll Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni. Vísað er til tilkynningar RÚV sem birtist í gær, þar sem greint var frá því að samkomulag hefði náðst milli RÚV og eigenda að skuldabréfi í 1. flokki 2000 um að RÚV greiddi ekki af skuldabréfinu á gjalddaga 1. október 2014, heldur yrði greiðslu frestað til áramóta.

Ákvörðun Kauphallarinnar er tekin á grundvelli ákvæðis í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga á NASDAQ OMX Iceland. Segir þar að komi sú staða upp hjá útgefanda að verðmyndun sé af einhverjum orsökum óviss, svo sem vegna óvissu um framtíð útgefandans, vegna þess að tilteknar upplýsingar liggi ekki fyrir geti Kauphöllin ákveðið að setja verðbréfaflokk viðkomandi útgefanda tímabundið á athugunarlista. Kauphöllin geti jafnframt í sérstökum tilvikum flutt verðbréfaflokk útgefandans á athugunarlista samkvæmt beiðni hans.