Ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefur farið stórlækkandi á nýju ári, enda hafa fjárfestar í vaxandi mæli fært sig úr hlutabréfum yfir í skuldabréf að undanförnu. Lægri ávöxtunarkrafa þýðir að eftirspurn eftir skuldabréfum eykst og fjárfestar - þeir sem kaupa bréfin gegn loforði um greiðslu með vöxtum í framtíðinni - gera því kröfu um að útgefendur bréfanna greiði lægri vexti, eins og felst í orðinu ávöxtunarkrafa. Um leið og ávöxtunarkrafan hefur lækkað hefur gengi skuldabréfa hækkað, en til dæmis má nefna að 20 ára verðtryggt skuldabréf Íbúðalánasjóðs (HFF150224) hafði í gær hækkað í verði um rúm 2,6% á einni viku. Á sama tíma hefur Úrvalsvísitalan lækkað um u.þ.b. 10%.

Metvelta hefur verið með íbúða- og ríkisbréf á síðustu dögum, en á mánudaginn nam samanlögð velta með þessar tvær tegundir af skuldabréfum 42,5 milljörðum króna. Í gær var það met slegið svo um munaði, þegar veltan var 69,3 milljarðar króna.

Gísli Hauksson, skuldabréfamiðlari  hjá Kaupþingi, segir að undanfarin ár hafi verið mjög góð ávöxtun í skammtímaskuldabréfum fyrirtækja , en í nærri tvö ár, á meðan uppsveifla hafi verið á hlutabréfamarkaði, hafi verið erfið tíð á markaði fyrir  óverðtryggð ríkisskuldabréf og verðtryggð íbúðabréf. "En þetta ár fer af stað með  miklum krafti  -- fjárfestar virðast vera að færa sig úr hlutabréfum í skuldabréf segir hann. "Þegar ávöxtunarkrafan fer lækkandi eins og hún hefur gert undanfarið bendir það til þess að væntingar séu um að Seðlabankinn lækki vexti á næstunni -- jafnvel væri hægt að túlka það þannig að  markaðurinn geri ráð fyrir tiltölulega erfiðri lendingu í hagkerfinu, þannig að Seðlabankinn þurfi að lækka vexti nokkuð skart. Lækkunin er veruleg, bæði í verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum, en þeir voru auðvitað orðnir mjög háir," segir Gísli. "Það sem er sérstakt við þessa hagsveiflu núna er hversu skyndilega henni virðist ætla að ljúka. Þessi kólnun sem átti sér stað á fjórða fjórðungi síðasta árs kom markaðnum greinilega á óvart, því annars hefði aðlögunin orðið hægari en raunin varð," segir Gísli.