Icelandair Group hefur hafið skriflegt ferli með skuldabréfaeigendum sínum sem felst í því að þeir kjósi um breytingar á kjörum skuldabréfsins sem félagið hefur verið í viðræðum um að verði gerðar . Við síðasta uppgjör kom í ljós að EBITDA félagsins fór undir 98 milljónir dala sem ekki stenst lánaskilmála skuldabréfanna.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá er um að ræða skuldabréf að nafnvirði 190 milljóna Bandaríkjadala, sem samsvarar um 21,5 milljörðum íslenskra króna. Það eru því um 55,4% af 38,7 milljarða króna heildarvaxtaberandi skuldum félagsins.

Hefur félagið gefið fyrirmæli til umboðsmanna skuldabréfsins, sem er félagið Nordic Trustee & Agency AB, um að hefja skriflega ferlið. Varða breytingar á kjörum skuldabréfsins m.a. uppgreiðslu að hluta á bréfunum, brottfall frá tilteknum fjárhagslegum skilyrðum og breytingar á uppgreiðsluheimild.

Breytingarnar sem boðaðar eru nú eru ekki að öllu leyti í samræmi við það sem kom fram í fyrri tilkynningu félagsins segir þar jafnframt. Fjárhagslegur ráðgjafi félagsins vegna málsins er DNB Markets.