Skuldabréfaeigendur Straums fengu 20 milljónir evra, um 3,3 milljarða króna á núverandi gengi Seðlabanka Íslands, greiddar 31. mars síðastliðinn. Greiðslan er í samræmi við samkomulag sem náðist milli skuldabréfaeigendanna, Íslandsbanka og ALMC (áður Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki) þann 17. nóvember 2010. Þar af fóru 8 milljónir evra, um 1,3 milljarðar króna, inn á reikning slitastjórnar Straums til að mæta framtíðarkröfum sem voru ekki viðurkenndar þegar afstaða var tekin til krafna í bú bankans. Ágreiningur er um sumar þessara krafna. Verði kröfurnar ekki viðurkenndar á endanum mun þetta fé renna til annarra skuldabréfeigenda þegar niðurstaða er komin um ágreininginn.