Norskt greiningarfyrirtæki sem sérhæfir sig í verðlagningu skuldabréfa, Nordic Bond Pricings, verðleggur skuldabréf Wow air á 15% af nafnverði, sem samsvarar væntum endurheimtum lánanna, að því er fram kemur í Fréttablaðinu .

Á þetta bendir sjóðsstjóri norska skuldabréfasjóðsins Forte Kreditt, Arne Edshagen, sem situr í óformlegu ráði kröfuhafa Wow air. Sjóður hans er sagður í norska blaðinu Finansavisen hafa keypt skuldabréf lággjaldaflugfélagsins íslenska fyrir 5 milljónir norskra króna eða sem samsvarar 70 milljónum íslenskra króna.

„Við búumst við litlum endurheimtum eins og staðan er í dag. Svo virðist sem verðmætin sem eftir standa felist mestmegnis í vörumerkinu og farþegagögnum,“ sagði Eidshagen. Verðmæti sjóðsins lækkaði um 1,13% eftir fall Wow, en ávöxtun sjóðsins á síðasta ári nam 3,3%.

Íslendingar með 37% af skuldunum

Yfirlit Pareto Securities gefur til kynna að íslensk félög hafi staðið fyrir 37% heildareftirspurnar bréfa félagsins, bandarísk félög fjórðungi, félög á hinum Norðurlöndunum 19% og önnur evrópsk félög 19%. Stór hluti fjársins í skuldabréfaútboðinu safnaðist þó með skuldbreytingu ýmissa krafna á félagið.

Aðrir norskir aðilar sem keyptu í félaginu eru nefndir til sögunnar, eins og MP Pensjon , sem hafi keypt fyrir meira en Forte Kreditt , og fjárfestingarfélagið Toluma , en stjórnarformaður þess er Morten Wilhelm Wilhelmsen sem er fyrrverandi forstjóri eins stærsta skipafélags heims, Wilhelmsen.

Meðal íslenskra kaupenda eru sjóðir í stýringu Gamma Capital Management , sem fjárfestu fyrir 2 milljónir evra, eða sem samsvarar 269 milljónum íslenskra króna miðað við núverandi gengi. Skúli sjálfur fjárfesti svo fyrir 5,5 milljónir evra, eða sem samsvarar 739 milljónum króna í dag.

Sjóðir í stýringu Eaton Vance Management keyptu fyrir 10 milljónir evra, eða sem samsvarar 1.343 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.

Bloomberg fréttastofan hefur svo nefnt fleiri fjárfesta, það eru félögin BNY Mellon , sem stýrir 1.700 milljarða dala sjóðum og eru staðsettir í New York og þýsku félögin Hansainvest Hanseatische Investment í Hamborg og Universal Investment í Frankfurt.