Í kjölfar útgáfu áætlunar um afnám gjaldeyrishafta tilkynntu Lánamál ríkisins um aðgerðir þeirra vegna haftaáætlunarinnar. Kom þar fram að gefinn yrði út nýr verðtryggður ríkisbréfaflokkur með lokagjalddaga árið 2030 sem boðinn yrði kaupendum aflandskróna í útboðum Seðlabankans. Verður sú skuldabréfaeign bundin til 5 ára, og gátu Lánamál þess að fyrst um sinn yrði ekki viðskiptavakt með hinn nýja flokk.

Greining Íslandsbanka fjallar um skuldabréfaflokkinn í Morgunkorni í dag. Þar segir að nýr skuldabréfaflokkur virðist sérsniðinn að þörfum lífeyrissjóðanna, sem hentar vel að eignast langtíma verðtryggð skuldabréf gegn skuldbindingingum sínum og setja ekki fyrr sig að geta ekki selt slík bréf næstu árin.

„Þessar breytingar leiða svo til þess að í stað þess að gefa út ríkisbréf með markaðsvakt að fjárhæð 120 milljarðar króna, eins og upphafleg ársáætlun hljóðaði upp á, er nú gert ráð fyrir því að gefa út slík bréf fyrir 60 miljjarða króna að lágmarki. Þegar hafa verið gefnir út 34 milljarðar af slíkum bréfum, eins og getið er að ofan, og þar með er hugsanlegt að útgáfa það sem eftir lifir árs muni aðeins nema 26 mö.kr. fram til áramóta. Áhersla verður lögð á útgáfu ríkisbréfa til lengri tíma en 5 ára.“