Skuldatryggingarálag ríkissjóðs lækkar þegar Seðlabankinn kaupir erlend skuldabréf ríkissjóðs. Þetta hefur Fréttablaðið eftir Jóni Bjarka Bentssyni, hagfræðingi í greiningu Íslandsbanka. Skuldatryggingarálagið er um þessar mundir það lægsta síðan í júní 2008 en Seðlabankinn keypti nýlega skuldabréf ríkissjóðs í evrum fyrir um 57 milljarða króna. Bréfin eru á gjalddaga á þessu ári og því næsta. Samanlagt hefur bankinn keypt bréf fyrir  131 milljarð króna að nafnvirði og eru kaupin á vef bankans  sögð liður í gjaldeyrisstýringu bankans. Eftir af þeim bréfum sem eru á gjalddaga á þessu ári og og því næsta standa nú um 73 milljarðar króna.

Fréttablaðið vitnar í Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa þar sem fram kemur að kaupin gætu haft í för með sér jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs við næstu endurskoðun hennar.