Heimildarmenn Viðskiptablaðsins á markaði segja miklar lækkanir á markaði sem Viðskiptablaðið greindi frá í morgun vera fyrst og fremst vegna viðbragða innlendra aðila við pólítískri óvissu, en ekki erlendra aðila sem eiga orðið töluverðar eignir á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Sagði einn viðmælanda blaðsins að mikil sala líkt og hefur sést sem af er degi oft vera fyrstu viðbrögð við fréttum af aukinni óvissu. Auk mikillar lækkunar á hlutabréfamarkaði og gengislækkunar krónunnar hefur ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hækkað um allt að 24 punkta í morgun, með tilheyrandi verðlækkunum skuldabréfa.

Talaði einn heimildarmaður Viðskiptablaðsins um slátrun í því samhengi, en spurður hvort einhver ákveðin félög séu útsettari fyrir pólítískri áhættu en önnur eru viðbrögðin þau að svo eigi við um öll félög, þó sjávarútvegurinn auðvitað búi við endalausa pólítíska óvissu.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun hefur Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagt ákvörðun Bjartrar framtíðar um að slíta stjórnarsamstarfinu vera mikið ábyrgðarleysi af fjögurra manna þingflokki sem hafi aldrei ætlað sér í raun að axla ábyrgð á stjórn landsins. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins tekur í sama streng og segir ekki gott fyrir samfélag að hafa pólítíska óróa.