Kínverski skuldabréfamarkaðurinn er gífurlega stór - á við þrjár billjónir Bandaríkjadala. Hann samanstendur að miklu leyti af skuldabréfum sem útgefin eru af fyrirtækjum. Nú hefur ávöxtunarkrafa skuldabréfa farið hækkandi hratt og örugglega eftir að hafa náð níu ára lágmarki í janúar þessa árs.

Ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkar í hlutfalli við áhættutilfinningu fjárfesta, svo þegar meiri líkur eru á því að skuldabréfið muni falla á gjalddaga hækkar ávöxtunarkrafan. Þótt svo að, eins og fyrr segir, ávöxtunarkrafan sé að fara hækkandi þá er ávöxtunarkrafan enn undir sögulegu meðaltali sínu.

Hins vegar gæti hækkun ávöxtunarkrafnanna haft neikvæð áhrif á hagkerfi Kína, sem reiður sig mjög á ódýrt lánsfé. Vegna hækkunarinnar hafa skuldabréfaútgefendur hætt við sölu bréfa að andvirði 9,6 milljarða Bandaríkjadala, eða um 1.180 milljarða íslenskra króna, aðeins í aprílmánuði.

Kínverskir stjórnmálamenn standa frammi fyrir miklum áskorunum. Ef þeir leyfa fyrirtækjum að standa ekki í skilum á skuldabréfum sínum skapar það hvata fyrir fjármálastjóra og eignastýringarmenn til þess að fylgjast nánar með aðstæðum og taka lánsáhættu betur inn í reikninginn við útgáfu skuldabréfa en áður hefur verið gert.

Hins vegar myndi það að leyfa fyrirtækjunum að falla á greiðslum sínum skapa mikinn óróa meðal fjárfesta, og í kjölfarið myndi aðgangur efnahagslífsins að lánsfé verða einhverju takmarkaðri. Það gæti verið þrándur í vegi áætlana Xi Jinping, sem hefur lofað 6,5% hagvexti á næstu fimm árum.

Sjö fyrirtæki hafa fallið á greiðslum sínum á árinu. Þrjú þeirra voru í ríkiseigu og -rekstri, í það minnsta að hluta til - en fyrir skömmu síðan hafði ríkið verið álitið öruggur bakhjarl skuldabréfaútgáfu. Þá ber helst að nefna að Dongbei Special Steel Group Co. hefur misst af þremur afborgunum. Stjórnarformaður fyrirtækisins fannst látinn eftir að hafa hengt sig í síðasta mánuði.

Greiningarfélög á borð við Standard & Poor's hafa þá unnið hörðum höndum við að lækka lánshæfismat ýmissa kínverskra fyrirtækja upp á síðkastið. Ljóst er að mikið er um að vera á kínverskum skuldabréfamörkuðum jafnt sem á hlutabréfamörkuðum. Erfitt er þó að spá fyrir um framhaldið.