Skuldabréfamarkaðurinn virðist hafa tekið vel í verðbólgutölur morgunsins, 5 ára verðbólguálag lækkaði um 32 punkta (0,32%) í viðskiptum dagsins og stendur nú í 5,27% og 10 ára álagið féll um 25 punkta niður í 4,68%.

Hagstofan gaf út marsmælingu vísitölu neysluverðs í morgun en samkvæmt henni mælist 12 mánaða verðbólga nú 9,8% og féll um 0,4 prósentur milli mánaða.

Markaðsaðilar virðast í kjölfarið hafa farið bjartsýnir á lækkun verðbólgunnar inn í daginn, því aukin eftirspurn eftir óverðtryggðum skuldum ríkissjóðs leiddi til frá 8 og upp í 18 punkta lækkunar ávöxtunarkröfu þeirra. 5 ára bréfið RIKB 28 féll um 14 punkta.

Á móti dalaði aðdráttarafl verðtryggðu skuldabréfaflokkanna sem keyrði upp kröfuna á þeirri hliðinni. Stysta bréfið, RIKS 26, hækkaði um 24 punkta og nam við lok viðskipta í dag 1,93%, og hefur nú hækkað um 66 punkta síðastliðinn mánuð. Krafa lengri bréfanna hækkaði að sama skapi minna í dag og hefur hreyfst mun minna síðustu misseri en hún hefur haldist í kring um 2% frá því síðasta haust.