Það hefur heldur betur hægst um á skuldabréfamarkaðnum frá því í gær. Veltan það sem af er degi nemur nú 1064 milljónum króna. Á hádegi í gær nam veltan um sextán milljörðum og höfðu þá viðskipti verið mikil allan morguninn. Nam heildavelta í dagslok þá 23,7 milljörðum króna

Einungis hafa verið viðskipti með bréf í tveimur flokkum í dag, annars vegar HFF 24, sem eru verðtryggð bréf Íbúðalánasjóðs og hins vegar RIKB 15 sem eru óverðtryggð ríkisskuldabréf.

Raunar var mikil velta á skuldabréfamarkaði fyrir helgi líka og er talið að ástæðuna megi rekja til skuldafellinganiðurstaðna sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra staðfesti um helgina að kynntar yrðu síðar í vikunni. Agnar Tómas Möller, sérfræðingur á GAMMA, sagði við VB.is í gær að þessi tíðindi væru líkleg til að auka verðbólguvæntingar og leggjast þungt í markaðinn yfir höfuð. „Ef þessar tillögur koma til framkvæmda þá munu þær með einum eða öðrum hætti fela í sér aukið peningamagn sem seðlabankinn mun bregðast við með auknu aðhaldi,“ sagði Agnar Tómas.

Viðbót klukkan 11:26
Nú hefur veltan meira en tvöfaldast og nemur nú klukkan 11:26 liðlega 2,3 milljörðum. Viðskipti hafa farið fram með bréf í sex skuldabréfaflokkum. Klukkan 11:05 höfðu einungis farið fram viðskipti með bréf í tveimur flokkum. Nam veltan þá 1064 milljónum króna.